Strýtan
Strýtan
Vatnshiti
Þetta mikilfenglega fyrirbrigði spýtir 70°C heitu ferskvatni sem blandast sjónum og skapar þægilega heitt vatn, sem dregur að sér fjölbreytt lífríki.
Skyggni
Skyggnið er yfirleitt nokkuð gott. Gæði kafanna
Þarna má verða vitni að því er þorskurinn syndir lóðrétt upp og niður þessa súlu og sprettfiskur, sem er algengur fjörufiskur, er allt í einu kominn í miðjan Eyjafjörðinn þar sem hann stundar heitböð umlukinn 70 metra djúpum álum. Sæfíflar, ígulker og fleiri undarleg fyrirbrigði þrífast á þessum einstaka hver. Það er eiginlega ekki hægt að líkja þessum stað við nokkurn annan enda einstakur að því leyti að þetta er heimsins stærsti neðansjávarhver sem sportkafarar geta heimsótt
Dýpt kafanna
Þegar kafað er niður að Strýtunni er efsti hluti hennar á um 12 metrum. Strýtan liggur hinsvegar niður á um 70 metra dýpi.
Kunnátta
Advanced Open Water – réttindi. En það er ekki fyrir hvern sem er að heimsækja þennan stað, því miður. Þarna er oft á tíðum straumþungt við yfirboðið og dýpið svo mikið að mikilvægt er að kunna að halda hlutlausri flotjöfnun á meðan á köfun stendur, sem sagt einungis fyrir reynda kafara. Til þess að komast þangað verða kafarar jafnframt að hafa bát og einhvern með í för sem er kunnugur staðháttum. Köfun í friðlýstum svæðum lúta ákveðnum reglum og ber að ganga vel um náttúruna og umhverfið!
Frekari upplýsingar
Í miðjum Eyjafirðinum á 65 metra dýpi er hver sem út streymir heitt vatn ríkt af steinefnum. Þegar þessi steinefni komast í snertingu við kaldan sjóinn sem umleikur hverinn verður hröð storknun steinefnanna og í tímans rás hefur myndast kalksteinssúla sem teygir sig frá 65 metrum upp á um 12 metra.
Tilvera þessa hverasvæðis hefur löngum verið þekkt vegna þess að í logni og sléttum sjó má greina á yfirborði sjávar ferskvatnið sem streymir frá hverasvæðinu. Það var hins vegar ekki fyrr en 1997 að umfang þessa svæðis var kannað af fyrirtækinu Prockarya. Fyrirtækið, sem hefur aðsetur í Reykjavík og vinnur að rannsóknum á örverum, sendi niður þýska kafbátinn Jago til rannsóknar á hverasvæðinu, söfnunar sýna og mælinga á hitastigi og magni þess vatns er streymir út um hverasvæðið. Tilgangur rannsóknanna var að leita að hitakærum örverum sem nýtast fyrirtækinu til framleiðslu á ensímum.
Rannsakaðar voru tvær hverastrýtur sem standa eins og strompar frá botninum, 25 og 33 metra háar. En það var ekki fyrr en ári síðar eða 1998 að sú strýta sem við sportkafarar þekkjum og hyllum sem mest fannst. Það ár héldu rannsóknir fyrirtækisins áfram á þessu svæði og í stað þess að notast við kafbát var Erlendur Bogason kafari fenginn til að kafa um svæðið, afla sýna og staðsetja tækjabúnað til söfnunar á miklu magni vatns frá hverasvæðinu. Erfitt hafði reynst að nota kafbátinn til þeirra verka.
Það var við þessar rannsóknir sem Erlendur uppgötvaði að strýturnar væru í raun og veru þrjár, en ekki tvær eins og áður var talið, og reyndist þriðja strýtann 45 metrar á hæð. Aldur strýtanna var ákvarðaður með kolefnagreiningu og bendir sú greining til þess að vöxtur þeirra hafi hafist fyrir u.þ.b. 11.000 árum. Þessir öldnu risar verða að njóta virðingar okkar sem eigum þess kost að heimsækja þá og til þess að undirstrika þá ábyrgð sem að okkur snýr voru strýturnar friðlýstar í mars árið 2001.
Allir kafarar sem kafað hafa í fallegum kóralrifum þekkja þær umhverfisreglur sem að þeim lúta og eru settar til að forða gersemunum frá tortímingu. Segja má að í grundvallaratriðum gildi sömu reglur um strýturnar þrjár. Þessar reglur eru okkar reglur, og enginn á að þurfa að tilskipa þær því þær eru okkur til hagsbóta. Enginn er að reyna að banna köfun við strýturnar heldur stendur til að bæta aðgengi að þeim. Þessi staður er engum líkur og vonandi kemur hann til með að haldast jafnflottur og hann er í dag