Kolbrún IS 74
Flak af 20 tonna rækjubát, Kolbrún ÍS-74 frá Ísafirði, steytti á skeri við Hrútey á Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi 11. apríl 1996.
MANNBJÖRG varð er 20 tonna rækjubátur, Kolbrún ÍS-74 frá Ísafirði, steytti á skeri við Hrútey á Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi á ellefta tímanum í gærmorgun. Tveir menn, bræðurnir Arnar og Hannes Kristjánssynir, voru á Kolbrúnu, og var þeim bjargað um borð í björgunarbátinn Daníel Sigmundsson um tveimur klukkustundum síðar. Það var flutningabílstjóri frá Ísafjarðarleið hf., sem varð var við neyðarblys frá skipverjunum er hann átti leið um Mjóafjörð. Hélt bifreiðastjórinn þegar að bænum Látrum og lét vita af því sem gerst hafði.
Sextán ára sonur hjónanna á bænum, Jón Sigmundsson, lagði þegar af stað með trébát sem stóð á hlaðinu og hugðist sigla til skipbrotsmannanna. Þegar niður að sjó var komið var utanborðsmótor bátsins settur í gang en hann drap fljótlega á sér og tók pilturinn því til þess ráðs að róa til mannanna, hátt í kílómetra leið. Þar sem festing fyrir aðra árina var brotin, réri pilturinn með einni ár og var kominn að mönnunum um svipað leyti og björgunarbáturinn Daníel Sigmundsson og rækjubáturinn Guðrún Jónsdóttir, sem var einnig að veiðum í Djúpinu.
Heimild: Morgunblaðið