Sportkafarafélag Íslands eru félagssamtök sportkafara á Íslandi. Félagið hefur starfað síðan 8. mars 1982 og er opið öllum í hvers kyns sportköfun, hvort sem um er að ræða köfun með kúta, fríköfun, tækniköfun eða öðru. SKFÍ á sitt eigið húsnæði að Brautarenda í Nauthólsvík.

Áhugasamir félagsmenn hittast á fimmtudögum frá kl. 20 í húsnæði félagsins til að fá fyllt á kútana sína, hitta aðra kafara og fylgjast með því sem er að gerast í samfélagi kafara.

Yfir vetrartímann er haldin fræðslukvöld þar sem ýmis málefni sem snerta köfun eru tekin fyrir. Þá fáum við góða gesti með sérhæfingu á fræðasviði sem eru áhugaverð fyrir félagsmenn, svo sem lífríki sjávar, umhverfisvernd, heilbrigði, tæknileg mál, köfunarstaði hérlendis og erlendis og margt fleira. Stundum er farið í vettvangsheimsóknir eins og hjá Landhelgisgæslunni, björgunarsveitum eða til að skoða þrýstiklefann á Landspítalanum.

Árlega eru farnar lengri köfunarferðir innanlands á vegum SKFÍ og má þar nefna ferðir í El Grillo flakið á Seyðisfirði og Strýturnar í Eyjafirði. Einnig er nokkuð um styttri ferðir, til að mynda í flak Vestra út af Akranesi, til Vestmannaeyja, í Breiðafjörð og á Vestfirði.

Félagsmenn sameinast reglulega um köfunarferðir til útlanda. Í maí 2015 fóru 18 íslenskir kafarar í „liveaboard“ ferð í Rauða hafið,  í apríl 2017 fóru nokkrir til Möltu og í september 2018 stendur til að fara 10 daga ferð til Möltu.

Jólaballið okkar er árviss og gríðarlega vinsæll viðburður þar sem við „dönsum“ í kringum skreytt jólatré með tilheyrandi undirspili, allt í vatni.
Við köfum árið um kring og það er jafnan kafað um hverja helgi ef veður leyfir og jafnvel í miðri viku. Félagsmenn nota gjarnan facebook síðuna „Út að kafa“ til að auglýsa eftir köfunarfélögum og mæla sér mót. Þessar lítt undirbúnu ferðir er oft mjög skemmtilegar og upp á síðkastið hefur það gerst að allt að 15-17 manns séu mætt til að kafa saman.